Fótbolti

Aron Einar: Þetta eru leiðinleg úrslit en það er ennþá möguleiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Visir/Getty
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, var niðurlútur í viðtali við Eddu Sif Pálsdóttur í útsendingu Sjónvarpsins frá leik Íslands og Nígeríu.

„Það var alveg munur á þessum hálfleikjum en við byrjuðum seinni hálfleikinn ekki nógu vel. Samt sem áður vorum við að fá færi og fáum líka vítaspyrnu. Þetta eru leiðinleg úrslit og sérstaklega þar sem fyrra markið þeirra kemur úr okkar fasta leikatriði,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.

„Mér finnst eins og það detti inn smá kæruleysi en við vorum samt sem áður að fá færi. Þeir spiluðu vel í dag og það er erfitt að tala um svona leik strax á eftir,“ sagði Aron Einar.

Gylfi var ekki sáttur með að klúðra vítaspyrnunni og neitaði Sjónvarpinu um viðtal. Gylfi kom þó seinna í viðtal.

„Það er alveg eðlilegt að það sé pirringur í mönnum. Gylfi klikkar ekki á mörgum vítum en hann er fyrsti maður til þess að taka næstu vítaspyrnu,“ sagði Aron.

„Það er bara áfram gakk. Svona hlutir gerast. Það hefði verið gaman að fá mark á þá og pressa aðeins hærra. Þetta eru leiðinleg úrslit fyrir okkur en það er ennþá möguleiki,“ sagði Aron.

„Þetta er bara ekki lengur í okkar höndum. Við þurfum að treysta á önnur úrslit í síðasta leiknum og vinna okkar leik náttúrulega. Það verður gríðarlega erfiður leikur á móti Króötum sem hafa verið frábærir í þessum riðli,“ sagði Aron Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×