Fótbolti

Stuðningsmenn í Volgograd: Mættir til að „fara á leikinn maður og drekka brennivín“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stemmingin var að magnast á stuðningsmannasvæðinu í Volgograd fyrir leik Íslands og Nígeríu sem hefst klukkan 15:00. Arnar Björnsson hitti á hressa stuðningsmenn sem voru tilbúnir til leiks.

Hann hitti á tvo hressa menn, þá Ásgeir Gunnarsson og Bjarna Má Jónsson, sem hafa marga fjöruna sopið og spurði hvað þeir væru að gera.

„Nú, fara á leikinn maður,“ sagði Ásgeir. „Og drekka brennivín,“ bætti Bjarni Már við.

„Samkvæmt læknisráði, ef maður er kominn yfir sjötugt, þá á maður að fá sér snafs alltaf klukkan sex á kvöldin. Ég virði það og ef ég gleymi því þá fæ ég mér tvo daginn eftir.“

Ásgeir sagði þetta vera fyrsta leikinn sinn erlendis en Bjarni er búinn að fara oft.

Spurðir um spá sagði Bjarni hann fara 2-0 fyrir Ísland en Ásgeir var aðeins svartsýnni og sagði 1-0 fyrir Ísland.

Bjarni er greinilega að njóta lífsins til hins ýtrasta en hann ætlar að skella sér til Póllands og sjá Rolling Stones.

Kapparnir lofuðu Arnari að þeir ætluðu að vera til friðs í stúkunni, „allavega fram í miðjan seinni hálfleik.“

Þetta stórkostlega viðtal má hlusta á og horfa hér í sjónvarpsglugganum í fréttinni.

Leikur Íslands og Nígeríu hefst eins og áður segir klukkan 15:00 og verður hann í beinni textalýsingu hér á Vísi.


Tengdar fréttir

Færeyingar fá Gumma Ben í stað Dana

Flestir Færeyingar halda með Íslandi á yfirstandandi heimsmeistaramóti. Fjöldi manns horfir á leikinn á útiskjá í Þórshöfn. Danskir lýsendur þóttu leiðinlegir og verður skipt út í dag. Færeyingar gætu átt raunhæfan séns á að verða fámennasta þjóð til að komast á stórmót.

Nígeríumenn „frusu“ úr kulda 1981 en „kafna“ Íslendingar úr hita 2018

Karlalandslið Íslands og Nígeríu í fótbolta mætast í dag í annað sinn í sögunni og nú í flugnaborginni Volgograd. Það er hætt við því að aldrei hafi verið eins mikill munur á aðstæðum í tveimur landsleikjum þjóða og í þessum tveimur leikjum Íslands og Nígeríu á fótboltavellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×