Fótbolti

Heimir hefur ekkert talað við Lars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. Vísir/Vilhelm
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, hefur ekkert talað við Lars Lagerback, fyrrum þjálfara íslenska landsliðsins.

Norskur blaðamaður spurði Heimi að því hvort hann hafi verið í sambandi við Lars Lagerbäck. Lagerbäck er nú þjálfari norska landsliðsins.

„Ég hef ekkert talað við Lars en við erum með okkur hérna góðan vin hans, Roland Andersson. Ég held að það sé nóg af áhrifum frá þeim hluta heimsins,“ sagði Heimir á blaðamannafundi fyrir Nígeríuleikinn.

Roland Andersson hefur unnið með Lagerbäck og var meðal annars aðstoðarþjálfari hans þegar Lars Lagerback fór með nígeríska landsliðið á Hm 2010.

„Ég býst við því að Lars muni horfa á leikina okkar á HM og ég veit að ég get haft samband við hann ef ég þarf á því að halda,“ sagði Heimir.

Lagerbäck var með Heimi sem aðstoðarmann fyrstu tvö ár sín sem þjálfari íslenska landsliðsins og þeir þjálfuðu liðið síðan saman næstu tvö ár. Heimir tók síðan við liðinu haustið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×