Þrátt fyrir það segir varnarmálaráðherran James Mattis að hann búist ekki við því að afvopnunin hefjist á næstunni. Mattis ræddi við blaðamenn í gærkvöldi um þá óvissu sem er uppi um næstu skref eftir Singapúrfund leiðtoganna tveggja.
Sjá einnig: Yfirlýsing Kim og Trump sögð innihaldsrýr en lofa miklu
Strax eftir fundinn sagði Trump að stjórnvöld í Pjongjang væru þegar farin að losa sig við kjarnavopn og að skotsvæði þeirra yrðu rifin niður á næstunni. Í staðinn hét Trump því að láta af sameiginlegum heræfingum Bandaríkjanna og Suður-Kóreu á Kóreuskaganum.

Mattis sagði hins vegar í gærkvöldi, aðspurður hvort Norður-Kóreumenn hefðu gripið til einhverra aðgerða eftir fundinn, að hann teldi svo ekki vera. Í það minnsta hefði hann ekki heyrt af neinum tilraunum stjórnvalda í Pjongjang til að verða við ákvæðum Singapúrsamningsins.
Það kæmi honum þó ekki á óvart enda væru ríkin tvö ekki búin að sammælast um framkvæmd og smáatriði samningsins. Það verði gert á komandi fundum.
Varnarmálaráðherrann segist hins vegar ekki vita hvenær bandarískir erindrekar muni funda næst með fulltrúum Norður-Kóreu. Hann býst þó við að fundur þeirra muni eiga sér stað einhvern tímann á næstu vikum.