Fótbolti

Veit varla hvað er í gangi á HM þegar að hann er ekki að spila

Tómas Þór Þórðarson í Volgograd skrifar
Hannes Þór Halldórsson var hetjan á móti Argentínu.
Hannes Þór Halldórsson var hetjan á móti Argentínu. vísir/Vilhelm
Alfreð Finnbogason, framherji íslenska landsliðsins í fótbolta, segir HM 2018 í Rússlandi töluvert stærra heldur en Evrópumótið í Frakklandi á síðasta ári en vera strákanna okkar þar gerði mikið til að undirbúa þá fyrir heimsmeistaramótið.

„Eini undirbúningur okkar fyrir það sem við máttum búast við að upplifa á HM var Evrópumótið í fyrra. Spennan var svipuð og svipað stórt kastljós á leikjunum,“ segir Alfreð.

 

„Þetta er samt stærra enda heimsmeistarakeppnin. Við bjuggumst við því að þetta væri svona tvisvar til þrisvar sinnum stærra en EM og mótið er að uppfylla allar væntingar okkar.“

Alfreð sat blaðamannafund með Hannesi Þór Halldórssyni á æfingasvæði íslenska liðsins í Kabardinka í gær þar sem þeir voru meðal annars spurði hvort þeir væru eitthvað að horfa á hina leikina á HM. Nóg er nú af leikjum.

„Leikirnir eru í gangi þegar við erum í meðhöndlun og eftir fundi. Við höfum séð slatta af því sem er í gangi í hinum leikjunum en aðallega einbeitum við okkur að því að halda einbeitingun og horfum svo á leiki inn á milli,“ segir Alfreð.

Markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson hefur aldrei séð færri leiki á HM en í ár þar sem að hann er svo einbeittur að því að gera vel fyrir íslenska liðið.

„Þetta er allt öðruvísi fyrir mig núna en áður þegar að maður horfði á nánast alla leiki. Ég veit eiginlega aldrei hvað er í gangi og hver er að spila nema þegar kemur að okkar leikjum. Við erum mjög einbeittir að okkar leikjum,“ segir Hannes.

„Eins og Alfreð segir eru leikirnir í gangi á hótelinu en þetta er samt ekki eins og að vera heima að fylgjast með öllu upp í sófa,“ segir Hannes Þór Halldórsson.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×