Innlent

Segir mjög erfiða helgi að baki á Landspítalanum vegna uppsagna ljósmæðra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Linda Kristmundsdóttir er framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans.
Linda Kristmundsdóttir er framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans. MYND/LANDSPÍTALI
Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans, segir að nýliðin helgi hafi verið mjög erfið á spítalanum vegna uppsagna tólf ljósmæðra á meðgöngu- og sængurlegudeild sem tóku gildi þann 1. júlí síðastliðinn. Álagstoppur er nú að skella á deildinni.

„Nýliðin helgi var okkur mjög erfið og það var barningur með mönnun. Við höfum verið að fá til liðs við okkur ljósmæður alls staðar að af spítalanum og svo hafa stjórnendur deildarinnar staðið tvöfaldar vaktir. Það stefnir svo í erfitt kvöld í kvöld,“ segir Linda í samtali við Vísi en yfirljósmóðir og aðstoðaryfirljósmóðir á meðgöngu-og sængurlegudeild voru til skiptis á sextán tíma vöktum um helgina.

Aðspurð til hvaða úrræða gripið hefur verið segir Linda að í raun hafi öll úrræði aðgerðaáætlunar spítalans verið nýtt.

„Við höfum útskrifað á aðrar heilbrigðisstofnanir, það er bæði Keflavík, Akranes, Akureyri og Selfoss. Við höfum útskrifað hraustar konur og hrausta nýbura fyrr og þá höfum við flutt sjúklinga inn á aðrar deildir sviðsins svo við höfum fengið aðstoð frá öðrum deildum, til dæmis vökudeild. Þannig að við erum eiginlega búin að nota öll atriðin í aðgerðaáætluninni,“ segir Linda.

„Það er alveg klárt að við endumst ekki lengi“

En hvað heldur starfsfólk meðgöngu-og sængurlegudeild lengi út eins og ástandið er núna, þannig að það skapist hreinlega ekki neyðarástand?

„Það er rosalega erfitt að segja til um það því það er svo erfitt að sjá langt fram í tímann í okkar bransa. Það sem við höfum hreinlega gert er að meta þetta bara frá vakt til vaktar. Til dæmis vitum við það að kvöldvaktin og næturvaktin verður okkur erfið þannig að þá erum við bara að vinna með það með öllum tiltækum ráðum. En þetta hefur verið okkur erfitt og það er alveg klárt að við endumst ekki lengi, ég get alveg sagt það upphátt. Það er alveg ljóst að fólk getur ekki unnið sextán tíma dag eftir dag eftir dag en hvenær er svolítið erfitt að segja,“ segir Linda.

Spurð hvernig viðmóti starfsfólk deildarinnar hefur mætt segir Linda að fólk sýni þessum skilning.

„En eðlilega er fólk áhyggjufullt og kvíðið og okkur finnst erfitt að finna fyrir því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×