Íslenski boltinn

Spilar Kári Árna fyrsta leikinn sinn í kvöld og það á erfiðasta velli Pepsi-deildarinnar?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason á HM í Rússlandi með íslenska landsliðinu.
Kári Árnason á HM í Rússlandi með íslenska landsliðinu. Vísir/Getty
Lokaleikur tólftu umferðar Pepsi-deildar karla í fótbolta fer fram í Egilshöllinni í kvöld þegar Fylkismenn taka á móti Víkingum.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður líka sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Víkingar unnu KR-inga í síðasta leik sínum, unnu Fylkismenn í fyrstu umferð og gætu teflt fram HM-leikmanni í kvöld.

Kári Árnason er kominn aftur til Víkinga eftir HM í Rússlandi með íslenska landsliðinu og hann gæti spilað sinn fyrsta leik í kvöld. Hann er búinn að fá ágæta hvíld eftir HM og er með leikheimild.

Verkefni kvöldsins er gríðarlega mikilvægur leikur í barátunni í neðri hluta deildarinnar. Víkingar eru með 12 stig í 9. sæti en Fylkismenn eru með aðeins einu stigi minna.

Fylkismenn sitja samt í fallsæti deildarinnar en það breytir ekki því að í dag eru þeir tölfræðilega með besta heimavöll Pepsi-deildinnar. (Hér má sjá árangur liðanna á heimavelli í sumar)

Fylkisliðið hefur unnið alla þrjá leiki sína í Egilshöllinni í sumar en þeir spila þar vegna framkvæmda við Fylkisvöllinn. Þeir unnu þar 2-1 sigur á KA, 2-1 sigur á ÍBV og 2-0 sigur á Keflavík. Þrír leikir, níu stig og +4 í markatölu (6-2).

Vandamál Fylkismanna er að í hinum sjö deildarleikjum liðsins hefur liðið aðeins fengið 2 stig af 21 mögulegu og markatalan er -8 (5-13).  

Fylkisliðið er þannig búið að skora fleiri mörk í þremur leikjum sínum í Egilshöllinni (6) heldur en í sjö leikjum sínum á öðrum völlum (5).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×