Samkvæmt heimildum spænska blaðsins Mundo Deportivo þá er PSG tilbúið að borga 270 milljónir evra, rétt tæplega 40 milljarða íslenskra króna, fyrir þennan 26 ára gamla leikmann.
Barcelona gæti því grætt talsverða peninga á Philippe Coutinho á hálfu ári séu Börsungar á annað borð tilbúnir að selja Brasilíumanninn til Frakklands.
#EXCLUSIVAMD Ofertón del PSG de 270 millones por Coutinho https://t.co/MsvMQtFOcC Te lo cuenta @RogerTorellopic.twitter.com/X3gwBPudLp
— Mundo Deportivo (@mundodeportivo) July 9, 2018
Mundo Deportivo segir aðalástæðuna fyrir áhuga PSG á Philippe Coutinho séu tilraunir eigandanna til að gleðja Neymar sem er orðinn órólegur eftir aðeins eitt tímabil hjá félaginu.
Neymar hefur meðal annars lent upp á kant við einhverja meðspilara sína hjá Paris Saint-Germain en Brasilíumaðurinn yrði örugglega mjög sáttur við að fá góðan vin sinn til Parísar.
Hvort Neymar yrði eins sáttur með að vera ekki lengur dýrasti leikmaður félagsins er hinsvegar allt önnur saga.
Paris Saint-Germain borgaði Barcelona 222 milljónir evra fyrir Neymar fyrir einu ári síðan. Þá keypti PSG upp samning Brasilíumannsins en það yrði miklu dýrara að kaupa upp samning Philippe Coutinho.
Philippe Coutinho gerði samning við Barcelona þegar hann kom í janúar frá Liverpool og sá samningur er til júníloka 2023. Það kostar 400 milljónir evra að kaupa upp samning Coutinho.