Fótbolti

Giroud: Hefði kosið að hafa Henry í okkar liði

Einar Sigurvinsson skrifar
Olivier Giroud.
Olivier Giroud. Vísir/Getty
„Það er skrítið að Thierry [Henry] sé andstæðingur okkar í þessum leik, en ég myndi vera mjög stoltur af því að sýna honum að hann valdi vitlaust lið,“ segir Olivier Giroud, framherji franska landsliðsins.

Frakkland mætir Belgíu í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í Rússlandi á þriðjudaginn, en Thierry Henry, markahæsti leikmaður franska landsliðsins frá upphafi, er í þjálfaraliði Belgíu.

„Ég hefði kosið að hafa Henry í okkar liði. Að gefa mér og hinum frönsku sóknarmönnunum ráð, en ég er ekki öfundsjúkur,“ segir Giroud.

Árið 2015 gagnrýndi Thierry Henry sem álitsgjafi hjá Sky Sport, Giroud og sagði að Arsenal gæti ekki unnið deildina með hann sem fyrsta kost í sókninni. Giroud var ósáttur með orð Henry á sínum tíma en segir þetta gleymt og grafið í dag.

„Það eru komin nokkur ár síðan hann sagði þetta um mig. Starf mitt er að standa mig eins vel og mögulegt er inni á vellinum, sem fulltrúi Frakklands.“

Þá hrósar hann liðsfélaga sínum hjá Chelsea, markverðinum Thibaut Courtois.

„Það er mjög erfitt að spila á móti Courtois. Hann er búinn að standa sig mjög vel á þessu heimsmeistaramóti. Hann er með góða vörn fyrir framan sig, en við munum finna leiðir í gegn um hana. Ég er sannfærður um að við náum að brjóta niður þennan vegg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×