Erlent

Tilraunir til að ná drengjunum úr hellunum hafnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrettán erlendir kafarar og fimm taílenskir taka þátt í björgunaraðgerðunum.
Þrettán erlendir kafarar og fimm taílenskir taka þátt í björgunaraðgerðunum. Vísir/EPA
Björgunarmenn í Taílandi eru byrjaði að reyna að ná tólf drengjum og þjálfara þeirra úr hellunum þar sem þeir hafa setið fastir undanfarnar tvær vikur. Þrettán erlendir kafarar og fimm frá taílenska sjóhernum taka þátt í aðgerðunum sem gætu tekið nokkra daga.

Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC fór björgunarlið inn í hellana klukkan tíu í morgun að staðartíma, klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma. Búist er við að fyrstu dregnirnir gætu komist upp á yfirborðið í fyrsta lagi um klukkan tvö að íslenskum tíma.

Narongsak Osottanakorn, yfirmaður björgunaraðgerðanna, segir bæði drengina og þjálfarann hrausta líkamlega og andlega. Þeir séu ákveðnir og einbeittir.

„Þetta er D-dagurinn,“ sagði Osottanakorn og líkti deginum við innrás bandamanna í Normandí í síðari heimsstyrjöldinni.

Mikil þrekraun bíður drengjanna. Þeir þurfa að kafa og ganga í gegnum hellana sem eru þröngir á köflum. Yngsti drengurinn er ellefu ára gamall og enginn þeirra hefur notað köfunarbúnað áður. Kafarar hafa reynt að kenna drengjunum tökin undanfarna daga.

Einn kafari lést í lok síðustu viku þegar hann undirbjó björgunaraðgerðirnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×