Fótbolti

Sumarmessan: Króatar með „ógeðslega“ vel mannað lið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Byrjunarlið Króata gegn Dönum
Byrjunarlið Króata gegn Dönum víris/getty
Króatar komust áfram í 8-liða úrslit á HM í Rússlandi í gær með sigri á Dönum í vítaspyrnukeppni. Króatar eru ein af þeim þjóðum sem hafa heillað hvað mest á mótinu.

„Þetta er ógeðslega vel mannað lið,“ sagði fótboltasérfræðingurinn Hjörvar Hafliðason í Sumarmessunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld þegar talið barst að króatíska liðinu.

„Þetta er hörku lið og svaka stórstjörnur sem þeir eru með. Þetta var lélegi leikurinn þeirra í keppninni,“ tók Jóhannes Karl Guðjónsson undir.

„Þeir hefðu átt að sýna mikið meiri yfirburði og sækja meira. Eftir að þeir jafna leikinn eru þeir allt of passívir.“

Króatar mæta Rússum í átta liða úrslitunum, leikur sem þeir ættu að vinna nokkuð örugglega, og geta því gert tilkall til sjálfs úrslitaleiksins.

Hjörvar benti þó á þá staðreynd að króatíska liðið virðist geta unnið leiki þar sem þeir eru litla liðið en þeir tapi oftar á móti andstæðingum sem þeir eiga að vinna.

Sumarmessan er á dagskrá á Stöð 2 Sport klukkan 21:00 að kvöldi hvers leikdags á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×