Íslenski boltinn

Valsmenn á sama stað á sama tíma og í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn fagna í sumar eins og í fyrra.
Valsmenn fagna í sumar eins og í fyrra. vísir/anton
Valsmenn unnu sinn sjöunda sigur í Pepsi-deildinni í gær og eru með fimm stiga forystu fyrir lokaleik umferðarinnar sem er á milli FH og Stjörnunnar í kvöld. Það er athyglisvert að bera árangur Valsliðsins í dag saman við árangur liðsins á sama tíma í fyrra.

Valsmenn hafa ekki varið Íslandsmeistaratitil síðan 1967 en þessi góða byrjun í ár gefur ástæðu til að halda að sú bið endi í haust. Það sem er sérstakt er að Valsmenn eru næstum því á nákvæmlega sama stað og fyrir ári síðan.

Fyrir einu ári síðan þá voru Valsmenn einnig með sjö sigra, þrjú jafntefli og eitt tap eftir fyrstu ellefu leikina. Markatalan var 17-9 þá eða átta mörk í plús.

Markatala Valsliðsins í ár eða 19-10 eða einu marki betri. Valsmenn hafa skorað oftar tvö mörk eða fleiri í sumar og hafa einnig haldið oftar hreinu í upphafi móts.

Bæði árin tapaði Valsliðið bara einum leik í fyrri umferðinni en bæði árin var sá leikur í Grindavík og tapaðist með minnsta mun. Valur tapaði 1-0 fyrir Grindavík sumarið 2017 og svo 2-1 í Grindavík í ár.

Valsmenn fengu reyndar „bara“ sex stig af fimmtán mögulegum í fyrstu fimm umferðunum í sumar en unnu sinn sjötta deildarleik í röð í gær.

Fyrir ári síðan þá voru Valsmenn með fjórum stigum meira eftir fyrstu fimm umferðirnar og unnu svo fjóra af sex (plús tvö jafntefli) í umferðum sex til ellefu.

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á fyrri umferðinni á þessum tveimur tímabilum. Það er magnað að sjá hversu litlu munar.



Valur í 1. til 11. umferð 2017

1. sæti með 24 stig

3 stiga forysta

7 sigrar

3 jafntefli

1 tap

+8 í markatölu

17 mörk skoruð

9 mörk fengin á sig

3 leikir haldið hreinu

5 leikir með tvö mörk eða fleiri



Valur í 1. til 11. umferð 2018

1. sæti með 24 stig

2-5 stiga forysta

7 sigrar

3 jafntefli

1 tap

+9 í markatölu

19 mörk skoruð

10 mörk fengin á sig

4 leikir haldið hreinu

8 leikir með tvö mörk eða fleiri




Fleiri fréttir

Sjá meira


×