Fótbolti

Pogba: Mbappe er hæfileikaríkari en ég

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mbappe fagnar öðru marka sinna í gær
Mbappe fagnar öðru marka sinna í gær víris/getty
Miðjumaðurinn Paul Pogba segir félaga sinn í franska landsliðinu Kylian Mbappe vera miklu hæfileikaríkari en hann sjálfur. Mbappe var framúrskarandi í sigri Frakka á Argentínu í 16-liða úrslitunum á HM í gær.

Pogba hefur verið mikið í sviðsljósinu og var hann ungur að aldri talinn verða næsta stórstjarna. Pogba er 25 ára í dag og hefur ekki alveg náð þeim hæðum sem margir sáu fyrir sér en er þó talinn með betri miðjumönnum heims.

Mbappe er fæddur árið 1998, sama ár og Frakkar urðu heimsmeistarar, og er orðinn ein stærsta stjarna fótboltaheimsins.

„Kylian er svo miklu hæfileikaríkari en ég. Sjáið þið hvað hann er að gera á þessum aldri, ég var aldrei svona góður,“ sagði Pogba við fótboltavefsíðuna Goal eftir leikinn í gær.

„Hann er svo fljótur. Hann er framherji og það er ekki hægt að bera okkur saman.“

Mbappe er kominn með þrjú mörk á HM til þessa, tvö þeirra komu í leiknum í gær ásamt því að hann fiskaði vítaspyrnuna sem Antoine Griezmann skoraði úr snemma leiks.

Frakkland mætir Úrúgvæ í 8-liða úrslitunum á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×