Fótbolti

Meiðsli James ekki eins alvarleg og menn óttuðust

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
James gæti verið orðinn leikfær gegn Englandi
James gæti verið orðinn leikfær gegn Englandi víris/getty
Meiðsli James Rodriguez eru ekki eins alvarleg og menn óttuðust í fyrstu og hann gæti verið leikfær þegar Kólumbía mætir Englandi í 16-liða úrslitum HM í Rússlandi á þriðjudag.

Rodriguez þurfti að fara meiddur af velli eftir aðeins hálftíma leik í viðureign Kólumbíu og Senegal síðasta fimmtudag.

Hann fór í myndatöku sem sýndi að kálfinn er aðeins bólginn, ekki sé um slit að ræða, samkvæmt tilkynningu sem kólumbíska sambandið gaf frá sér í gærkvöld. Ekki kom fram í tilkynningunni hvort Rodriguez yrði með í leiknum gegn Englendingum.

Rodriguez, sem var markahæstur á HM fyrir fjórum árum, hefur átt í vandræðum með hægri kálfann í nokkra mánuði og var hann frá í fyrsta leik Kólumbíu á HM vegna meiðsla á kálfa.

Jose Pekerman, landsliðsþjálfari Kólumbíu, sagði eftir leikinn við Senegal að hann hefði miklar áhyggjur af ástandi Rodriguez. Þeim áhyggjum hefur líklega létt aðeins eftir þessar niðurstöður en Rodriguez er mikilvægur hlekkur í sóknarleik Kólumbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×