Innlent

Ekki útlit fyrir að sækja þurfi um undan­þágur á Land­spítalanum í kvöld og nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Páll Matthíasson er forstjóri Landspítalans. Hann segir að staðan á spítalanum verði áfram þung vegna yfirvinnubanns ljósmæðra.
Páll Matthíasson er forstjóri Landspítalans. Hann segir að staðan á spítalanum verði áfram þung vegna yfirvinnubanns ljósmæðra. Vísir
Sótt var um undanþágu á tveimur deildum Landspítalans í nótt, meðgöngu- og sængurlegudeild og á fæðingargangi, vegna yfirvinnubanns ljósmæðra sem tók gildi á miðnætti. Þá hafa komið inn þrjár undanþágubeiðnir annars staðar af landinu.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir í samtali við Vísi að nóttin hafi verið þung og mikið hafi verið að gera en að ekki þurfi að sækja um undanþágur eins og staðan er núna fyrir kvöldið í kvöld og komandi nótt.

Hins vegar sé verið að kalla inn samkvæmt undanþágulistum sem er annað úrræði en að sækja um undanþágu til undanþágunefndar, en það er gert þegar þörf er á mönnun sem er umfram það sem má samkvæmt undanþágulistum.

Júlí almennt frekar álagsríkur mánuður í fæðingum

Páll segir að það verði áfram þung staða á spítalanum en segir gott að búið sé að boða til fundar í deilunni á morgun.

Fæðingar eru þess eðlis að erfitt er að sjá fram í tímann hversu mikið verður að gera á hverri vakt. Aðspurður segir Páll að álagstoppur hafi verið síðasta sólarhring og að almennt megi segja að júlí sé frekar álagsríkur mánuður, það er að það séu heldur fleiri fæðingar júlí en mætti gera ráð fyrir.

„Það ætti að vera einn tólfti af fæðingum á árinu en þetta er heldur meira, en fyrstu tvær vikurnar sást það þó ekki en núna virðist vera að færast aukinn þungi í þetta.“

Páll segir markmið spítalans alltaf vera að tryggja öryggi og leitað sé allra leiða til að gera það við núverandi ástand. Það sé hins vegar erfitt að svara því hversu lengi þetta gengið svona.

„En ég tel að þetta geti ekki gengið lengi. Þetta er hættuástand og ekki í raun bjóðandi annað en að gera allt sem hægt er til að komast úr þessu ástandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×