Fótbolti

Ósammála um hvort úrslitaleikurinn hafi verið sá besti í sögunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur Stöðvar 2 Sports, og Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður og fyrirliði Breiðabliks, eru ósammála um gæði úrslitaleiks HM 2018 í fótbolta.

Báðir eru á því að leikurinn í gær, þar sem að Frakkland vann Króatíu 4-2, hafi verið mjög góður en hann er ekki sá besti sem þeir hafa báðir séð.

„Ég hef ekki séð alla úrslitaleikina. Brasilía-Svíþjóð 1958 hlýtur að hafa verið hörkuleikur. Hann endaði, 5-2,“ segir Hjörvar.

„Af þeim leikjum sem ég hef séð er 86-leikurinn bestur. Hann rúllaði svo oft heima hjá mér á VHS. Það sem að sá leikur hafði var að hann var spennandi allan tímann. Í stöðunni 4-1 fyrir Frakklandi í ár var þetta búið. Leikurinn í ár er því sá næst besti sem að ég hef séð,“ segir hann.

Gunnleifur er ósammála. Hann er mikill aðdáandi úrslitaleiksins frá því 1986 þar sem að Argentína vann Vestur-Þýskaland en leikurinn í gær er sá besti sem að hann hefur séð.

„Menn tala um að 1970-leikurinn hafi verið frábær á milli Brasilíu og Ítalíu. Ég sá hann ekki. Fyrir mér er þetta besti úrslitaleikur sem ég hef séð,“ segir Gunnleifur Gunnleifsson.

Alla umræðuna má sjá hér að ofan en þar er einnig þrasað um hvort Rússlandi hafi verið sigurvegari HM 2018 og hvernig Jóla-HM verður árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×