Breski kafarinn sem gagnrýndi Elon Musk harðlega fyrir kafbát sem hann smíðaði fyrir björgunaraðgerðirnar í Taílandi hefur fengið ansi óvægin svör frá tæknifrumkvöðlinum á Twitter.
Björgunarmaðurinn, Vern Unsworth, gagnrýndi Musk fyrir að hafa blandað sér inn í björgunaraðgerðirnar og segir hann hafa reynt að nýta sér þá miklu athygli sem málið fékk.
Sjá einnig:Björgunarmaður vandar Musk ekki kveðjurnar: „Hann má stinga kafbátnum sínum þar sem hann verkjar“
Í dag tjáði Musk sig á Twitter-síðu sinni og sagðist aldrei hafa séð Unsworth á björgunarsvæðinu. Hann hafi aðeins rekist á heimamenn sem störfuðu við björgunina og þeir hafi fylgt honum í hellinn, en ekki rekið hann í burtu eins og Unsworth hélt fram.
Musk sagði vatnsyfirborð í hellinum ekki hafa verið jafn hátt og hafði verið gefið í skyn og hægt að synda að fimmta hellinum án búnaðar. Þá skoraði hann á Unsworth að sýna myndband af björguninni sjálfri.
Í öðru tísti sagði Musk það vera óþarfi að sýna myndband frá björguninni, þar sem hann ætlaði sér að gera myndband sem sýnir kafbátinn fræga fara að fimmta hellinum án vandkvæða. Hann endar svo tístið á orðunum: „Sorrý barnaperri, þú baðst um þetta.“
Elon Musk svarar björgunarmanninum: „Sorrý barnaperri, þú baðst um þetta“
Tengdar fréttir
Musk ýmist hylltur eða gagnrýndur harðlega fyrir að vilja aðstoða
Bandaríski tæknifrumkvöðullinn Elon Musk er ýmist hylltur eða gagnrýndur harðlega fyrir tilraunir hans og samstarfsfélaga til þess að finna lausn til þess að koma knattspyrnudrengjunum tólf og þjálfara þeirra út úr hellinum í Taílandi.
Sérútbúið hylki á leið frá Elon Musk til Taílands
Elon Musk, eigandi SpaceX og Tesla, hefur sent lítinn kafbát til Taílands sem mögulegt er að verði notaðir í björgunaraðgerðum vegna þeirra níu sem eftir sitja í hellinum í Chiang Rai. CNN greinir frá.
Elon Musk býður fram aðstoð við björgun fótboltastrákanna
Fulltrúar á vegum Elon Musk eru í viðræðum við yfirvöld í Taílandi um hvernig fyrirtæki í eigu frumkvöðulsins geti aðstoðað við björgun fótboltastrákanna sem dvalið hafa í helli í tólf daga.