Rapparinn Cardi B er búin að eiga dóttur sína en hin nýbakaða móðir greindi frá þessu á Instagram-reikningi sínum í dag. Cardi B eignaðist barnið með eiginmanni sínum, rapparanum Offset, en sú stutta hefur hlotið nafnið Kulture Kiari Cephus.
Þá fylgir fæðingardagur Kulture með en hún kom í heiminn í gær, 10. júlí. Færsluna má sjá hér að neðan.
Kulture Kiari Cephus 07/10/18 @offsetyrn
A post shared by Cardi B Official IG (@iamcardib) on Jul 11, 2018 at 7:36am PDT
Cardi B skaust hratt upp á stjörnuheiminn í fyrra og er orðin einn vinsælasti rappari heims. Hún greindi fyrst frá því að hún ætti von á barni í beinni sjónvarpsútsendingu skemmtiþáttarins Saturday Night Live í apríl síðastliðnum.
Þá hefur samband hennar og Offsett, sem er einn þriggja meðlima hljómsveitarinnar Migos, vakið mikla athygli en þau héldu hjónabandi sínu leyndu í marga mánuði eftir að þau gengu í hnapphelduna.
Kulture Kiari er fyrsta barn móður sinnar en fjórða barn föður síns. Offset hefur greinilega haft mikil áhrif á valið á nafni dótturinnar en hann heitir Kiari að eiginnafni auk þess sem önnur plata Migos ber titilinn Culture.