Íslenski boltinn

Ná Fjölnismenn að brjóta Blikamúrinn?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Blikarnir spila við Fjölni í kvöld.
Blikarnir spila við Fjölni í kvöld. vísir/anton
Breiðablik hefur heldur betur staðið vaktina vel varnarlega undanfarna leiki en í kvöld mætir liðið Fjölni í Pepsi-deild karla.

Liðið hefur haldið hreinu í síðustu tveimur leikjum gegn ÍBV og KA og hefur liðið einungis fengið á sig eitt mark í síðustu fjórum leikjum liðsins.

Það kom í bikarleik gegn Val en í deildarkeppninni hefur liðið einungis fengið á sig sex mörk, lang fæst allra liða í deildinni. Næst kemur Valur með ellefu fengin á sig.

Blikarnir hafa þó lent í vandræðum með að skora. Liðið hefur gert tvö markalaus jafntefli í röð en í kvöld gæti Thomas Mikkelsen, danskur framherji, spilað sinn fyrsta leik fyrir félagið.

Hann gekk í raðir Blika fyrir um mánuði síðan og hefur æft með félaginu síðan þá. Hann hefur spilað meðal annars með Dundee United í Skotlandi og Vejle í Danmörku.

Fjölnismenn eru einu stigi frá fallsæti og það er ljóst að það verður hart barist í Kópavoginum í kvöld. Heldur Blikamúrinn eða ná Fjölnismenn að fella hann?

Flautað verður til leiks í Kópavoginum klukkan 19.15 en útsending Stöðvar 2 Sports hefst klukkan 19.00. Strax eftir leik verða svo Pepsi-mörkin á dagskrá þar sem Hörður Magnússon og félagar gera upp umferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×