Erlent

Forsíður og leiðarar gegn Jeremy Corbyn og Verkamannaflokknum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. VÍSIR/AFP
Þrjú stærstu dagblöð breska gyðingasamfélagsins prentuðu í gær samræmda forsíðu. Blöðin birtu leiðara þar sem því var haldið fram að samfélagi gyðinga á Bretlandi stafaði ógn af þeim möguleika að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, kæmist til valda.

„Þetta gerum við af því að flokkurinn sem var, þar til nýlega, náttúrulegt heimili okkar samfélags hefur breyst vegna fyrirlitningar Corbyn-liða í garð gyðinga og Ísraels. Þessi smánarblettur gyðingahaturs hefur fest á stjórnarandstöðunni eftir að Jeremy Corbyn varð leiðtogi hennar árið 2015,“ sagði meðal annars í leiðaranum.

Ásakanir um andúð á gyðingum hafa plagað Verkamannaflokkinn undanfarna mánuði. Það leiddi til þess að flokkurinn uppfærði reglur sínar í síðustu viku. Þær breytingar voru þó ekki nógu miklar, að mati ritstjórna dagblaðanna þriggja. „Sú þrjóska Verkamannaflokksins að innleiða ekki að fullu skilgreiningu Alþjóðlega minningarbandalagsins um helförina (IHRA) á gyðingaandúð, sem leiddi til þess að þingmaður flokksins, Margaret Hodge, sagði við leiðtoga sinn að hann væri gyðingahatari, er versta móðgunin til þessa.“

Helsti munurinn á nýjum reglum flokksins og skilgreiningar IHRA er sá, að mati ritstjórnanna, að í reglum Verkamannaflokksins er ekki kveðið á um að samanburður Ísraelsríkis við Þýskaland nasismans jafngildi gyðingahatri né að það sé gyðingahatur að segja tilvist Ísraelsríkis sjálfa rasíska.

Umræðan um skilgreiningu á gyðingahatri hefur klofið Verkamannaflokkinn. Corbyn og skugga­ráðherrar hans eru í minnihluta í umræðunni. Á mánudag var samþykkt að þingmenn flokksins muni greiða atkvæði um það í september hvort innleiða skuli skilgreiningu IHRA að fullu í reglur flokksins.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×