Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - FCK 0-2 | Danirnir höfðu betur á teppinu

Þór Símon Hafþórsson á Samsung-vellinum í Garðabæ skrifar
vísir/daníel
Stjarnan fékk danska stórliðið FC Kaupmannahöfn í heimsókn í kvöld í undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu.



Leikurnn var í góðu jafnvægi fyrir heimamenn í bláu en þrátt fyrir stífa pressu frá Dönum náðu gestirnir ekki að skapa nein opin færi á meðan Stjarnan beitti skyndisóknum með ágætis árangri.



Staðan var markalaus en þá ýtti Stale Stolbakken, þjálfari Kaupmannahafnar, bensíngjöfina í botn og gerði tvöfalda skiptingu. Þeirra á meðal var maður að nafni Viktor Fischer sem setti leikinn á annan endan fyrir Stjörnunna.



Viktor bar höfuð og herðar í gæðum yfir alla leikmenn á vellinum og í þokkabót var hann óþreyttur. Hann byrjaði á að leggja upp fyrsta mark gestana með fallegri fyrirgjöf á galopinn framherja liðsins, Kenan Kodro, sem skallaði af stuttu færi í netið.



Fischer var allt í öllu á næstu mínútum og lið Stjörnunnar réð ekkert við hann. Því kom lítið á óvart þegar danski landsliðsmaðurinn fékk boltann í teignum og skapaði sér pláss með laglegri fótavinnu áður en hann smellti boltanum í fjærhornið.



Staðan 2-0, gestunum í vil, eftir klukkutímaleik, og einvígið svo gott sem búið. Það vissu danirnir sem róuðu leikinn niður eftir þetta og héldu búrinu sínu harðlæstu.



Lokatölur, 2-0, sigur Kaupmannahafnar og formsatriði fyrir danska stórveldið að klára einvígið í næsta leik liðanna sem fram fer eftir viku á hinum fræga heimavelli liðsins, Parken.

Úr leiknum á Samsung-vellinum í kvöld.vísir/daníel
Afhverju vann Kaupmannahöfn?

Það liggur augum uppi að gæðin hjá Dönunum er miklu meiri en hjá Íslenska liði Stjörnunnar. Vissulega var fyrri hálfleikur í góðu jafnvægi.



E það er lítið hægt að gera þegar andstæðingur þinn geymir mann eins og Viktor Fischer á bekknum til þess eins að henda honum inn á gegn þreyttum leikmönnum þínum í upphafi seinni hálfleiks.



Án viðveru hans á vellinum er aldrei að vita hvort Stjarnan hefði getað nælt í góð úrslit í dag en um leið og hann snerti boltann var ljóst að hann myndi gera Stjörnunni lífið leitt og það gerði hann svo sannarlega.



Hverjir stóðu upp úr?

Viktor Fischer fyrst og fremst. Ég veit að það hljómi eins og ég sé ástfanginn af kauða eða að ég fái sérstaklega borgað fyrir að setja stafina F-I-S-C-H-E og R saman en hann gjörbreytti leiknum.



Gæðin hans voru á allt öðru stigi hér í kvöld og þrátt fyrir að Kaupmannahöfn sé klárlega með betra lið en Stjarnan frá manni til manns þá var það Fischer sem skilaði þessum sigri til gestanna.



Hvað gekk illa?

Það er ekki hægt að skamma Stjörnuna neitt fyrir þessa frammistöðu. Liðið hefði mátt nýta nokkrar skyndisóknir betur og það hefði mátt verjast fyrsta markinu betur en þeir gáfu allt í þetta.



Þegar þú getur allt í leik og tapar þá er það bara hið besta mál. Stjarnan gaf allt og gat þ.a.l. ekki gefið neitt meira. Það gefur auga leið.



Hvað gerist næst?

Stjarnan heimsækir Víking í leik sem liðið verður hreinlega að vinna ætli það sér ekki að dragast aftur úr í toppbaráttunni. Svo er vika í seinni leikinn gegn Kaupmannahöfn sem fram fer á Parken.

Fischer var frábær í kvöld.vísir/daníel
Rúnar Páll: Verðum að hafa trú

„Við spiluðum góðan fyrri hálfleikinn vel. Fengum fín færi og góðar opnanir sem við nýttum ekki nógu vel. Mér fannst við liggja vel í vörninni þegar við fáum á okkur fyrsta markið. Bara óvenju léleg dekkning og eitthvað sem við eigum að ráða betur við,“ sagði Rúnar Páll, þjálfari Stjörnunnar, eftir tapið í kvöld.



„Þeir skora tvö mörk á okkur. Þangað til var leikurinn í góðu jafnvægi. Þeir lágu á okkur en við vissum það fyrirfram. Fengum góðar sóknir sem við hefðum átt að nýta betur og þá hefði staðan verið önnur,“ sagði Rúnar sem segist ekki vera alveg búinn að gefa upp vonina á að ná í hagstæð úrslit í seinni leik liðanna.



„Við verðum að hafa trú á þessu á meðan það er hægt. Við förum út eftir viku og reynum að njóta þess.“



Stale Solbakken: Erfitt að spila gegn Stjörnunni

Stale Solbakken, þjálfari Kaupmannahafnar, var ánægður í leikslok með sigurinn og frammistöðuna í seinni hálfleik.



„Á fyrstu 25 mínútunum í seinni hálfleik þá spiluðum við hraðan og góðan fótbolta. Við náðum þá loks úrslitasendingum. Þá fórum við að skapa góð færi,“ sagði Stale sem gerði tvöfalda skiptingu í upphafi seinni hálfleiks er hann setti Robert Skov og Viktor Fishcer inn á sem gjörbreytti leiknum. En var það hluti af skipulaginu eða var hann bara ekki sáttur með frammistöðuna í fyrri hálfleik?



„Ein skipting var hluti af skipulaginu og undirbúningnum og ein ekki. Þið getið örugglega giskað á hvor var hvað,“ sagði brosandi Solbakken en ég ætla að gerast svo djarfur og giska á að Fischer hafi verið þessi umtalaða skipting sem stóð upphaflega ekki til.



Hann hrósaði Stjörnunni að lokum.



„Það er erfitt að spila gegn Stjörnunni. Þeir verjast vel og þeir eru góðir í skyndisókn. Nýta föst leikatriði vel með löngum innköstum. Þannig þeir reyna vel á mann,“ sagði Solbakken sem segist ekki ætla að leyfa sínum mönnum að slaka á eftir viku.



„Við héldum á dögunum að svona einvígi væri búið og svo reyndist alls ekki þannig við mætum tilbúnir í seinni leikinn.“

Stjörnumenn lögðu sig alla fram í kvöld.vísir/getty
Baldur Sigurðsson: Gerðum heiðarlega tilraun

Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, var tiltölulega brattur í leikslok þrátt fyrir 2-0 tap gegn FC Kaupmannahöfn í fyrri leik liðanna í undankeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta.



„Við vorum bara býsna góðir í fyrri hálfleik. Vörðumst vel og byrjuðum af krafti. Fengum góð færi til að skora á þá á fyrstu tíu mínútunum og vorum ákveðnir að mæta af sama krafti í seinni,“ sagði Baldur en staðan var markalaus í hálfleik og Stjarnan búið að spila ansi vel. Því miður gekk ekki sem skyldi í þeim seinni er gestirnir náðu fljótlega tveggja marka forystu.



„Við gefum þeim eiginlega mark. Hann (Kenan Kodro) stendur aleinn fyrir framan markið og það setur leikinn úr jafnvægi fyrir okkur. Eðlilega fór hausinn pínulítið. En við gerðum heiðarlega tilraun gegn frábæru liði og getum borið höfuðið hátt“



Maðurinn sem gerði gæfu muninn fyrir gestina heitir Viktor Fischer en hann var í HM-hóp Dana í sumar. Hann kom inn á í hálfleik sem og var nánast eins og einhver svindl-kall. Svo góður var hann en hann lagði upp eitt og skoraði svo annað mark liðsins.



„Það var skemmtilegt að eiga við þá og við ætluðum að stoppa hann en Fischer sýndi gæðin sín. Hann var kvikur á fótunum og áræðin og það er erfitt að eiga við svona menn. Sérstaklega þegar maður er orðin aðeins þreyttur,“ sagði Baldur sem horfir spenntur fram á veginn.



„Það er svekkjandi að tapa 2-0 á heimavelli en við getum svo sem sagt að þetta sé ekki alveg búið. Við förum allavega ekki til Danmerkur í vonlausri stöðu. Njótum þess að spila á Parken og reynum að gefa þeim leik.“



Seinni leikur liðanna fer fram eftir viku en í millitíðinni heimsækir Stjarnan lið Víkinga á sunnudaginn í Pepsi deildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira