Íslenski boltinn

Freyr: Hugrekkið horfið úr varnarleik FH-inga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Áttfaldir Íslandsmeistarar FH hafa átt í stökustu vandræðum með að verjast föstum leikatriðum í Pepsi-deild karla í fótbolta í sumar en liðið fékk á sig tvö þannig mörk í 4-1 tapinu gegn Breiðabliki á sunnudaginn var.

FH er í heildina búið að fá á sig tíu mörk úr föstum leikatriðum í þrettán leikjum í sumar sem er tveimur mörkum fleira úr föstum leikatriðum en liðið fékk á sig allt síðasta sumar.

Breiðablik skoraði tvö mörk á FH upp úr aukaspyrnum inn á teiginn. Í fyrra skiptið skallaði Thomas Mikkelsen boltann í netið kolrangstæður en í það síðara lagði Mikkelsen upp mark fyrir Davíð Kristján Ólafsson.

„Það var að trufla þá gríðarlega mikið að hann var að standa inn í þessari rangstöðu og á þessu augnabliki falla Viðar Ari og Gummi Kristjáns niður og þá er Mikkelsen réttstæður,“ sagði Freyr Alexandersson í Pepsi-mörkunum á mánudagskvöldið þegar að hann tók varnarleik FH-inga fyrir í seinna markinu.

„Það er ótrúlegt að horfa á þetta. Það er enginn sem ber ábyrgð á manninum. Þetta er galinn varnarleikur. Sjáið þetta! Þeir standa oft á tíðum alveg rétt en grimmdin að vinna fyrsta og annan bolta er ekki til staðar,“ sagði Freyr.

Sem fyrr segir hefur FH oft verið betra í að verjast föstum leikatriðum en liðið var til dæmis í fyrra besta lið deildarinnar í þeim hluta leiksins ásamt Víkingi.

„Ég ákvað að kíkja á föst leikatriði hjá FH 2015 og 2016 og þar voru leikmennirnir að standa á svipuðum stað og markvörðurinn var á svipuðum stað. Það vantar þessa árásagirni og hugrekki sem er farið úr varnarleiknum hjá FH. Þeir voru besta liðið á Íslandi í föstum leikatriðum lengi vel,“ sagði Freyr Alexandersson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×