Framtakssjóðurinn Auður I, sem er í rekstri Kviku, hagnaðist um 166 milljónir króna árið 2017 samanborið við 103 milljóna króna tap árið áður. Í fyrra var gengið frá sölu á óbeinum eignarhluta sem nam um 29 prósentum í Ölgerðinni.
Sjóðurinn átti útistandandi kröfu fyrir hluta kaupverðs upp á 726 milljónir króna við árslok. Þá var hlutur í 365 seldur og sjóðurinn fékk árangurstengda greiðslu vegna sölu á Yggdrasil árið 2016.
Auður I keypti í Ölgerðinni 2010 en árið 2016 seldu hluthafar, sem fóru fyrir 69 prósentum, hlut sinn. Kaupendur voru Akur í stýringu Íslandssjóða og Horn III í stýringu Landsbréfa og einkafjárfestar. Sjóðurinn á meðal annars 81 prósents hlut í Já og helmings hlut í Íslenska gámafélaginu.
