Íslenski boltinn

Kári neitar því að um „leikrit“ hafi verið að ræða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Árnason tekur eitt tímabil í viðbót í atvinnumennskunni.
Kári Árnason tekur eitt tímabil í viðbót í atvinnumennskunni. Vísir/Getty
Kári Árnason, landsliðsmiðvörður í fótbolta, snýr ekki aftur í Víkingsliðið í Pepsi-deildinni á þessari leiktíð en hann er á leiðinni til Tyrklands þar sem hann spilar á næsta tímabili í Evrópuboltanum. Liðið sem um ræðir er í B-deildinni í Tyrklandi, samkvæmt heimildum Vísis, en ekki hefur fengið uppgefið við hvaða lið Kári er að semja.

Miðvörðurinn 35 ára gamli samdi við uppeldisfélagið sitt Víking í maí og fékk leikheimild áður en að hann fór til móts við landsliðið og spilaði á HM í Rússlandi. Hann ætlaði að snúa aftur eftir heimsmeistaramótið en ekkert varð af því.

Til stóð að Kári myndi spila leik Víkings gegn Keflavík í Pepsi-deildinni á dögunum en hann meiddist á kálfa á æfingu daginn fyrir leikinn sem varð til þess að hann missti bæði af leiknum gegn Keflavík og bikarleiknum gegn Ólafsvíkingum.

Þegar það fór að dragast á langinn að Kári spilaði með Víkingum eftir endurkomuna var farið að ræða á samfélagsmiðlum um að þetta væri leikrit hjá Víkingum og Kára, það stæði í raun og veru ekki til að hann myndi spila með Fossvogsliðinu á þessari leiktíð.

„Ég var búinn að gera mig tilbúinn að spila fyrir Víkinga en svo meiddist ég í kálfa. Fólk hélt því fram að þetta væri leikrit til að ég gæti farið út en svo er alls ekki,“ segir Kári í viðtali við Morgunblaðið í dag.

Kári ætlar sér að spila í rauðu og svörtu treyjunni áður en að ferlinum lýkur en það verður að bíða þar til á næstu leiktíð.

„Ég er Víkingur í húð og hár og ég myndi aldrei viljandi sleppa því að spila leik. Ég hef áfram samband við Víkinga og ætla mér að spila með þeim næsta sumar,“ segir Kári Árnason.


Tengdar fréttir

Logi: Óskum Kára góðs gengis

Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, þurfti að horfa upp á lið sitt fá skell í dag gegn toppliði Vals í kvöld er hans menn töpuðu 4-1. Ekki nóg með það heldur fóru tveir menn Víkings út af vellinum meiddir áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×