Víkingur Reykjavík hefur staðfest að Kári Árnason muni ekki leika með liðinu í Pepsi-deild karla í sumar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu í dag.
Í tilkynningunni segir að Víkingur hafi veitt tyrknesku félagi heimild til að semja við Kára. Þar segir jafnframt að tækifærið hafi komið óvænt upp á síðustu dögum og endanlega hafi verið gengið frá samkomulagi í morgun.
Kári skipti yfir í Víking fyrr í sumar og ætlaði sér að leika með liðinu í Pepsi-deildinni að HM í Rússlandi loknu.
Kári hefur hins vegar ekkert komið við sögu með Víkingum í sumar og aðeins verið í liðsstjórn í undanförnum leikjum liðsins.
Í yfirlýsingu Víkings kemur einnig fram að samkomulag sé á milli Víkings og Kára þess efnis að þegar Kári snúi til baka frá Tyrklandi næsta vor muni hann leiki fyrir Víking eins og til hafði staðið að hann myndi gera í sumar.
