Skoðun

Ófögnuður

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Fundir eru nánast undantekningalaust til mikillar óþurftar. Tímasóun sem virtist vera þeim kærust sem minnstan áhuga hafa á því að koma einhverju af viti í verk.

Verstir eru þó fundirnir þegar saman kemur fólk ýmist með tóm höfuð, eða full af ógeðslegum hugsunum og áformum. Tveir ólíkir menn áttu slíkan fund í byrjun vikunnar og fyrirfram óttaðist fólk með viti meðal annars að þetta yrði eins og að viðvaningur stigi inn í hnefaleikaferhyrninginn á móti Muhammad Ali.

Og vissulega kom Donald Trump ansi lemstraður frá stuttri og snarpri viðureign sinni við Vladimír Pútín. Ekki furða þar sem annar er vínbelgur sem er við það að springa af heimsku, hroka og skrumi en hinn útsmoginn, eldklár og viðsjárverður járnkall, hertur og mótaður hjá hinum forna erkifjanda James Bond, Bandaríkjanna og hins vestræna heims, KGB.

Háskalegustu Leppalúðar Rússagrýlunnar komu úr dýpstu og dimmustu hellum Sovétríkjanna og þaðan var Pútín kominn til þess að tuska til sjálfumglaðan silfurskeiðung frá New York sem kann ekki einu sinni að hnýta bindishnút.

Pútín gæti hæglega verið skúrkur í James Bond-mynd. Svo svakalegur að hann gæti hæglega stútað besta njósnara hennar hátignar á meðan Trump gæti í besta falli verið vondi kallinn í Austin Powers-mynd, enda ekki einu sinni fær um að ganga skammlaust við hlið drottningar.

Skömmu eftir að þessi ófagnaðarfundur holdgervinga bíómynda­skúrka var haldinn í Finnlandi skunduðu gulu skósveinarnir úr Aulinn ég-myndunum á Þingvöll og hringsnerust þar um sjálfa sig í fullkomnu tilgangsleysi að fagna aldar fullveldi þjóðar sem var ekki einu sinni boðið á ballið.

Aularnir, við erum þeir.




Skoðun

Sjá meira


×