Íslenski boltinn

Óli Stefán: Verðum svolítið kjarklausir

Árni Jóhannsson skrifar
Óli Stefán smá svekktur í leikslok.
Óli Stefán smá svekktur í leikslok. vísir/ernir
Grindvíkingar hefðu líklega verið ánægðir með eitt stig úr leik þeirra við KR fyrr í kvöld en því miður fyrir þá þá náðu KR-ingar að klára leikinn á seinustu mínútunum. Þjálfari Grindavíkur var hundfúll þegar blaðamaður náði á hann eftir leik.

„Við vorum ekki ánægðir með stigið fyrir leik en eftir því sem leikurinn þróaðist þá þurftum við að verja stigið sem við vorum með og erum við oftast nokkuð góðir í því að verja stigið.”

„Við héldum þeim frá því að skapa sér dauðafæri lungan úr leiknum og það er svakalega pirrandi að fá á sig svona mörk sem við erum algjörlega búnir að teikna upp. Það var lítið eftir og þetta var hrikalega súrt að sjá. Óskar skoraði svona mark í seinustu umferð.“

Óli Stefán var spurður að því hvort þessi úrslit þýddu eitthvað fyrir markmið Grindvíkinga svona um mitt mót.

„Þetta er bara einn leikur af mörgum og okkur langaði í þessi þrjú stig eins og ég segi. Ég er pínulítið pirraður út af því að við vorum að standa okkur vel ákvörðunartökur á seinasta þriðjung vallarins voru ekki nógu góðar eftir að við vorum að losa okkur úr pressunni þeirra. Þegar þeir fara að þjarma að okkur þá verðum við svolítið kjarklausir.”

„Menn eru ekki enn orðnir nógu stórir til að leysa svona verkefni því vissulega erum við með nógu gott lið. Evrópubarátta eða ekki við hugsum ekkert um það við erum bara að spá í hvern einstakan leik og við vildum þessi þrjú stig. Ég vildi að menn sýndu meiri áræðni í að sækja þessi þrjú stig því við eigum að vera orðnir nógu stórir til þess.”

Óli var svo spurður hvort það væru einhverjar hreyfingar fyrir lok gluggans en hann sagði að Grindvíkingar þyrftu að sníða sér stakk eftir vexti og nú væri ekki möguleiki á fleiri leikmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×