Íslenski boltinn

Ólafur: Þetta ferðalag sat í mönnum

Einar Sigurvinsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH. S2 Sport
„Ég er bara ánægður með að við skyldum hafa náð að landa þessum þremur stigum. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Fjölnisliðið er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og eru sprækir,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, eftir sigur sinna manna á Fjölni í kvöld.

Eina mark leiksins kom eftir aðeins 48 sekúndna leik, í kjölfarið voru Fjölnismenn hættulegra liðið á vellinum.

„Við skorum snemma, það var gott. Svo taka þeir svolítið yfir en við vörðumst vel.“

Fyrir aðeins fjórum dögum síðan lék FH gegn Hapoel Haifa í Ísrael og segir Ólafur að Evrópuleikurinn hafi sett sitt mark á leikinn.

„Eins og þú hefur kannski séð á spilamennskunni, þetta langa ferðalag sat í mönnum. Síðasti hópur var að koma klukkan tvö, aðfaranótt laugardagsins. Við notum það ekkert sem afsökun en þetta tekur toll.“

„Það var mjög ánægjulegt að fá þessi þrjú stig. Við spilum góðan leik á móti Blikum í síðustu umferð og töpum 4-1. Það eru ekki gefin nein verðlaun fyrir fegurð, heldur eru það úrslitin. Við einbeittum okkur að því núna.“

Seinni leikur FH og Hapoel Haifa fer fram í Kaplakrika á fimmtudaginn og hefst nú undirbúningur fyrir þann leik.

„Núna tekur bara við að jafna sig og vera klárir fyrir fimmtudaginn. Standið á hópnum er gott. Pétur Viðarsson fékk eitthvað í magann og þrír aðrir úr hópnum, sem eru að vísu ekki leikmenn. Annars er þetta bara þreyta og hópurinn er ferskur.“

„Þetta leggst vel í mig. Þetta er gott lið sem við erum að fara að mæta og það verður verðugt verkefni hérna á fimmtudaginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×