Íslenski boltinn

Gústi Gylfa: Hvað heldur þú?

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Gústi er að gera góða hluti í Kópavoginum.
Gústi er að gera góða hluti í Kópavoginum. vísir/bára
Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Breiðabliks, gat leyft sér að fagna vel með leikmönnum og stuðningsmönnum eftir mikilvægan 1-0 sigur á KR á Kópavogsvelli í kvöld. Lið hans hefur nú unnið fjóra leiki á röð og tróna á toppi Pepsi-deildarinnar.

„Það er mjög gaman að vera þjálfari Breiðabliks þessar vikurnar, en allur heiðurinn fer á leikmenn og stuðningsmenn, sem hafa stutt dyggilega við bakið á okkur. Þetta eru skemmtilegustu sigrarnir, að vinna 1-0. KR-ingar stóðu sig vel og börðust allan leikinn en það gerðum við líka svo sannarlega. Mér fannst við eiga sigurinn skilinn og þetta voru geggjuð þrjú stig,” sagði Ágúst.

Alexander Helgi Sigurðarsson, sem þreytti frumraun sína í sumar með Breiðablik í kvöld, var hetjan í kvöld. Ágúst var skiljanlega ánægður með hans innkomu í kvöld.

„Hann gerir í raun allt vel í kvöld og markið hans var frábært. Ég var búinn að segja við hann, þegar við kölluðum hann tilbaka úr láni frá Víkingi Ólafsvík, að það biði hans stórt hlutverk í liðinu. Hann hlustaði á mig og stimplaði sig strax inn í fyrsta leik. Það er ekki hægt að biðja um neitt meira en það.”

Blikar eru nú komnir á toppinn. Blaðamaður spurði Ágúst hvort stefnan væri ekki sett á að vera á þeim stað í lok tímabils.

„Hvað heldur þú?”, spurði Ágúst blaðamann glottandi.

Að sjálfsögðu, var svar blaðamanns, enda lítið annað hægt að segja.

„Þú hittir naglann á höfuðuð. Að sjálfsögðu ætlum við að vera þar áfram,” sagði kokhraustur Ágúst að lokum.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×