Viðskipti innlent

Arion gjaldfærði 250 milljónir vegna kaupauka

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion.
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Arion banki skuldbatt sig á fyrri helmingi ársins til þess að greiða 247 milljónir króna í kaupaukagreiðslur til starfsmanna samstæðunnar. Samstæðan gjaldfærði þar af 212 milljónir króna vegna greiðslna til starfsmanna bankans, að því er fram kemur í nýbirtum árshlutareikningi bankans.

Kaupaukagreiðslurnar sem Arion banki gjaldfærði á síðari helmingi síðasta árs námu alls 252 milljónum króna, að launatengdum gjöldum meðtöldum, og lækkuðu þær því lítillega eða um 5 milljónir króna á milli árshelminga. Greiðslu 40 prósenta kaupaukans er frestað um þrjú ár í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja.

Skuldbinding samstæðunnar, það er bankans og dótturfélaga hans, vegna kaupaukakerfisins nam 792 milljónum króna í lok júnímánaðar samanborið við 942 milljónir króna í lok síðasta árs.

Fjöldi stöðugilda hjá samstæðunni var 1.309 í lok júní sem er fjölgun um 86 stöðugildi frá sama tíma fyrir ári og um 25 frá lokum síðasta árs. Laun og launatengd gjöld voru 9.647 milljónir á fyrri árshelmingi og hækkuðu um 10 prósent á milli ára.

Í kjölfar skráningar Arion banka á hlutabréfamarkað í júní fékk hver starfsmaður bankans hlutabréf í honum sem samsvara útborgun einna mánaðarlauna, þó að hámarki einni milljón króna. Markaðsvirði bréfanna var 295 milljónir króna þegar bréfunum var úthlutað í júní.




Tengdar fréttir

Hagnaður Arion dróst saman um 56 prósent

Hagnaður Arion banka nam 3,1 milljarði króna á öðrum fjórðungi ársins og dróst saman um 56 prósent frá fyrra ári þegar hann nam 7,1 milljarði króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×