Fjarskiptafyrirtækið Míla varar við því að hlaupið í Skaftá gæti haft áhrif á fjarskiptasambönd á svæðinu. Fyrirtækið hefur lýst yfir óvissustigi á Suðurlandi vegna hlaupsins.
Strengjakerfi Mílu liggja um vatnasvæði Skaftár. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að kerfinu geti stafað hætta af eins stóru hlaupi og spáð hefur verið í ánni.
Starfsmenn Mílu og samstarfsaðilar á Suðurlandi eru sagðir í viðbragðsstöðu vegna hlaupsins.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu er búist við því að hlaupið komi að efsta bænum í Skaftárdal um klukkan tíu til ellefu í kvöld.

