Erlent

Prenta ekki byssur strax

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ýmsir hræðast það að leyfa prentun skotvopna.
Ýmsir hræðast það að leyfa prentun skotvopna. Vísir/Getty
Robert Lasnik, alríkisdómari í bandarísku borginni Seattle, skipaði vefsíðunni DEFCAD í fyrrinótt að taka þrívíddarprentunarskrár fyrir skotvopn úr birtingu.

Úrskurðurinn var nýjasta vending í baráttunni gegn frjálsri þrívíddarprentun skotvopna en Defense Distributed, fyrirtækið á bak við DEFCAD, komst í síðasta mánuði að samkomulagi við yfirvöld, eftir fjögurra ára málaferli, um að heimila birtingu skránna þann fyrsta ágúst.

Samkomulagið var umdeilt og átta ríki Bandaríkjanna greindu frá því í sameiginlegri yfirlýsingu á mánudag að þau myndu gera sitt besta til að fá samkomulaginu hnekkt fyrir dómstólum. Tuttugu önnur ríki lýstu svo stuðningi við markmiðið.

Þá hafði DEFCAD nú þegar birt skrárnar, gerði það fjórum dögum áður en heimilt var, og þeim verið hlaðið niður mörg þúsund sinnum. Um prentunarskrár fyrir tíu mismunandi skotvopn var að ræða og sagði miðillinn Ars Technica frá því að þar á bæ hefðu menn getað náð í skrár til að prenta virka eftirlíkingu af AR-15 hríðskotariffli.  

Skrárnar eru enn í dreifingu og gat Fréttablaðið auðveldlega fundið þær á niðurhalssíðum.

Í úrskurði sínum sagði Lasnik að komist þessi órekjanlegu þrívíddarprentuðu skotvopn og prentunarskrárnar í dreifingu muni það hafa neikvæðar afleiðingar. „Það eru þrívíddarprentarar í háskólum og víða á meðal almennings. Það má leiða líkur að því að þrívíddarprentuð skotvopn muni valda óafturkræfum skaða.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×