Fótbolti

Mettilboð frá rússnesku félagi í Arnór Sigurðsson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Norrköping fagna marki Arnórs Sigurðssonar í sumar.
Leikmenn Norrköping fagna marki Arnórs Sigurðssonar í sumar. Vísir/Getty
Íslenski unglingalandsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson gæti verið á leiðinni til Rússlands og þar með að bætast í hóp þeirra fjölmörgu Íslendinga sem spila í rússnesku deildinni.

Sænska blaðið Expressen slær því upp í dag að rússneskt félag hafi boðið IFK Norrköping 30 milljónir sænskra króna fyrir Arnór Sigurðsson. Upphæðin gæti hækkað upp í 40 milljónir með bónusum.

30 milljónir sænskra króna eru meira en 354 milljónir í íslenskra krónum og upphæðin gætu endaði í 472 milljónir íslenskra króna.

Ef Norrköping tekur tilboðinu þá yrði Arnór dýrasti leikmaðurinn sem félagið hefur selt.





Arnór er 19 ára gamall miðjumaður sem er upphaflega af Skaganum. Hann lék sjö leiki með ÍA í Pepsi-deildinni áður en hann fór út til Svíþjóðar sumarið 2016.

Arnór hefur átt mjög gott tímabil með Norrköping en hann er með þrjú mörk og þrjár stoðsensdingar í sextán leikjum í sænsku úrvalsdeildinni þar sem Norrköping liðið er eins og er í fjórða sæti.

Rússar kunna greinilega vel að meta íslenska knattspyrnumenn sem streyma núna hver á öðrum til Rússlands.

IFK Norrköping seldi á dögunum Jón Guðna Fjóluson til FC Krasnodar fyrir um fimm milljónir sænskra króna.

Fimm íslenskir leikmenn spila nú í rússnesku deildinni en það eru þeir Ragnar Sigurðsson, Sverrir Ingi Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson (allir hjá Rostov), Hörður Björgvin Magnússon hjá CSKA Moskvu og Jón Guðni Fjóluson hjá Krasnodar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×