Fótbolti

UEFA hlustaði ekki á kvörtun KSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið á Algarve fyrr á þessu ári.
Íslenska kvennalandsliðið á Algarve fyrr á þessu ári. Vísir/Getty
Einn af mikilvægari leikjum íslenska kvennalandsliðsins í mörg ár verður spilaður á mjög undarlegum tíma. Um er að ræða síðasta leik Íslands í undankeppni HM sem fer fram klukkan þrjú á virkum degi.

Íslensku stelpurnar spila við Tékkland klukkan 15 þriðjudaginn 4. september, þegar stór hluti þjóðarinnar er í vinnu eða skóla. Knattspyrnusamband Íslands hefur orðið vart við gagnrýni á tímasetningu leiksins, meðal annars á samfélagsmiðlum, en skýringu er að finna á þessum sérstaka leiktíma.

KSÍ segir í tilkynningu á Fésbókarsíðu sambandins að leikurinn við Tékka sé einn af mörgum sem hefjist á sama tíma. Þar sem um lokaleiki í undankeppninni er að ræða geta þeir skorið úr um hvaða lið fara í umspil um sæti á HM. KSÍ og fleiri knattspyrnusambönd kvörtuðu yfir þessu til Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, þegar tilkynnt var um leiktímann. Athugasemdin bar ekki árangur.

Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari hefur reynt að útskýra ástæðuna fyrir sparkspekingum sem krafið hafa KSÍ svara. Á sama tíma og leikið sé klukkan 15 á Íslandi fari fram leikur klukkan 21 í Kasakstan.

Íslenska landsliðið spilar við Þýskaland á Laugardalsvellinum þremur dögum fyrr og sá leikur hefst líka klukkan 15.00. Málið er bara að sá leikur fer fram á laugardegi. Íslensku stelpurnar eru í efsta sæti riðilsins fyrir síðustu leikina og getur tryggt sér sæti á HM í Frakklandi 2019 með góðum úrslitum. 

Íslenska liðið er með 16 stig eða einu stigi meira en Þýskaland og níu stigum meira en Tékkland. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×