Íslenski boltinn

Sjáðu Garðar skalla FH-inga út úr bikarnum í síðasta bikarleik Stjörnunnar og FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Garðar Jóhannsson fagnar einu marka sinna í þessum leik fyrir fimm árum.
Garðar Jóhannsson fagnar einu marka sinna í þessum leik fyrir fimm árum. Mynd/S2Sport
Stjarnan tekur í kvöld á móti FH í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta en í boði er sæti í úrslitaleiknum á Laugardalsvellinum 15. september.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport alveg eins og hinn undanúrslitaleikurinn á milli Blika og Ólafsvíkinga á morgun.

Stjarnan og FH hafa spilað marga rosalega deildarleiki á síðustu árum en það eru liðin fimm ár síðan að Stjarnan og FH mættust síðast í bikarnum.

Síðasti bikarleikur nágrannanna var í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar sem þá hét Borgunarbikarinn. Leikurinn fór fram á Samsung vellinum í Garðabæ alveg eins og leikurinn í kvöld en FH-ingar vona að úrslitin verði allt önnur.

FH komst þá reyndar í 1-0 í upphafi leiks með marki frá Birni Daníel Sverrissyni en Stjarnan vann leikinn á endanum 3-1.

Garðar Jóhannsson var maður leiksins en hann skoraði öll þrjú mörk Garðbæinga í leiknum þar tvö þau fyrstu með fjögurra mínútna millibili í fyrri hálfleiknum.

Mörk Garðars komu á 33. mínútu, 37. mínútu og 90. mínútu leiksins. Hann skoraði öll mörkin sín með skalla.

Þetta var ár Garðars í bikarnum því hann skoraði einnig í sigurleikjum Stjörnunnar í átta liða (3-2 sigur á Fylki) og undanúrslitunum (2-1 sigur á KR). Stjarnan tapaði hinsvegar í vítakeppni í bikaúrslitaleiknum á móti Fram og þar skaut Garðar í slána úr sinni vítaspyrnu.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá þessum síðasta bikarleik Stjörnunnar og FH fyrir fimm árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×