Viðskipti innlent

Attestor minnkar við sig í Arion

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Arion banki var skráður á markað um miðjan júní.
Arion banki var skráður á markað um miðjan júní. Fréttablaðið/Eyþór
Breski vogunarsjóðurinn Att­estor Capital hefur selt ríflega hálfs prósents eignarhlut í Arion banka eftir að bankinn var skráður á hlutabréfamarkað um miðjan júnímánuð. Sjóðurinn seldi þriggja prósenta hlut í útboði bankans og hefur þannig á skömmum tíma minnkað hlut sinn um 3,5 prósent af hlutafé bankans.

Attestor, sem kom fyrst inn í hlutahafahóp Arion banka í mars í fyrra, átti 8,92 prósenta hlut í bankanum í lok síðasta mánaðar. Til samanburðar var eignarhluturinn um 12,44 prósent áður en Arion banki var skráður á markað í júní en sjóðurinn keypti fyrr á árinu tveggja prósenta hlut í bankanum.

Engar söluhömlur gilda um tveggja prósenta hlut í eigu Attestor eftir hlutafjárútboðið, samkvæmt skilmálum hlutafjárútboðsins, en að öðru leyti má vogunarsjóðurinn ekki selja hlutabréf sín í bankanum í 180 daga eftir að útboðinu lauk.

Samkvæmt heimildum Markaðarins varð breyting á fjárfestingastefnu vogunarsjóðsins eftir að sjóðsstjórinn Pierre Bour, sem var meðeigandi Attestor Capital, lét af störfum fyrr á árinu. Var þá ákveðið að draga úr vægi Arion banka í eignasafni sjóðsins.

Engar breytingar hafa orðið á eignarhlut annarra stærstu hluthafa bankans eftir skráningu. 

Við lokun markaða í gær nam hlutabréfaverð Arion banka 89 krónum á hlut og var um nítján prósentum hærra en í útboði bankans fyrr í sumar þegar Kaupþing og Attestor seldu um 29 prósenta hlut á genginu 75 fyrir samtals um 39 milljarða.

Kaupendur bréfanna voru að stærstum hluta erlendir fjárfestingasjóðir á meðan íslenskir fjárfestar – almenningur, fagfjárfestar og lífeyrissjóðir – fengu aðeins að kaupa samanlagt um 9 prósenta hlut.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×