Breska íþróttavörukeðjan Sports Direct keypti 60 prósenta hlut í Rhapsody Investments, móðurfélagi verslunar Sports Direct í Kópavogi, fyrir 2,5 milljónir breskra punda eða sem jafngildir um 345 milljónum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi bresku keðjunnar fyrir síðasta rekstrarár sem lauk í apríl.
Greint var frá kaupunum í Markaðinum í byrjun febrúar síðastliðins en seljendur voru Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson og fjölskylda. Var kaupverðið sagt trúnaðarmál. Eftir kaupin á breska keðjan, sem er í eigu breska kaupsýslumannsins Mikes Ashley, verslunina að öllu leyti.
Deilur höfðu staðið yfir á milli Ashleys og íslensku fjárfestanna um nokkurt skeið. Þannig var greint frá því í dagblaðinu Sunday Times í ágúst í fyrra að keðja Ashleys, sem átti þá 40 prósenta hlut í Sports Direct á Íslandi, hefði boðist til þess að kaupa 60 prósenta hlut Íslendinganna á 100 þúsund evrur eða sem jafngildir um 12,4 milljónum króna.
Í fréttinni sagði hins vegar að ekki væri óvarlegt að ætla að virði verslunarinnar næmi sem jafngildir 2,5 milljörðum króna.
NDS, rekstrarfélag verslunarinnar, hagnaðist um ríflega 135 milljónir króna á rekstrarárinu frá maí 2016 til apríl 2017 og tvöfaldaðist hagnaðurinn á milli rekstrarára. Velta NDS nam tæplega 1.050 milljónum króna og voru rekstrargjöldin um 919 milljónir.
Verslun Sports Direct á Íslandi, sem var opnuð árið 2012, var í frétt Sunday Times sögð sú arðbærasta sem rekin væri undir merkjum Sports Direct en þær eru alls um 700 talsins í 19 Evrópuríkjum.
Viðskipti innlent