Sex lykilstjórnendur smásölukeðjunnar Festar, þar á meðal Jón Björnsson forstjóri, fengu samanlagt um 344 milljónir króna greiddar þegar kaupréttarsamningar þeirra voru gerðir upp fyrr á árinu í tengslum við sölu á keðjunni til N1.
Við stofnun Festar, sem hefur meðal annars rekið verslanir undir merkjum Krónunnar og ELKO, árið 2014 voru lykilstjórnendum og forstjóra veittir kaupréttir á allt að 22,4 milljónum hluta í smásölukeðjunni. Var gert ráð fyrir að kaupréttur hvers og eins stjórnanda áynnist í nokkrum áföngum á fjögurra ára tímabili en að kaupréttirnir yrðu gerðir upp ef það kæmi til sölu á félaginu.
Í ársreikningi Festar fyrir síðasta rekstrarár, sem lauk í febrúar á þessu ári, kemur fram að kaupréttarsamningarnir hafi verið gerðir upp í lok tímabilsins með fyrirvara um endanlega sölu á keðjunni. Var virði kaupréttargreiðslnanna 344,5 milljónir króna en umrædd fjárhæð var gjaldfærð í rekstrarreikningi smásölukeðjunnar á rekstrarárinu.
Samkeppniseftirlitið samþykkti sem kunnugt er kaup N1 á Festi í lok júlímánaðar gegn skilyrðum en sameinuðu félagi N1 og Festi ber meðal annars að selja frá sér fimm eldsneytisstöðvar, þar af þrjár stöðvar undir merkjum Dælunnar, og eina dagvöruverslun á Hellu.
Auk Jóns eru helstu stjórnendur Festar meðal annars Gréta María Grétarsdóttir fjármálastjóri, Þórarinn Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs, Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri ELKO, og Viðar Örn Hauksson, framkvæmdastjóri Bakkans vöruhótels.
Alls námu laun, hlunnindi, kaupaukagreiðslur og greiðslur vegna kauprétta til stjórnar, forstjóra og annarra lykilstjórnenda Festar um 721 milljón króna á síðasta rekstrarári borið saman við 340 milljónir króna á fyrra rekstrarári, að því er fram kemur í ársreikningnum.
Eggert Þór Kristófersson, sem hefur starfað sem forstjóri N1 frá byrjun árs 2015, verður forstjóri sameinaðs félags N1 og Festar en Jón Björnsson mun gegna starfi framkvæmdastjóra Krónunnar.

