Fótbolti

Arnór að ganga í raðir CSKA fyrir fúlgur fjár?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Norrköping fagna marki Arnórs fyrr á tímabilinu.
Leikmenn Norrköping fagna marki Arnórs fyrr á tímabilinu. vísir/getty
Arnór Sigurðsson mun að öllum líkindum ganga í raðir CSKA Moskvu í vikunni en þetta herma heimildir Fótbolta.net.

Arnór hefur undanfarna daga og vikur verið orðaður við rússneska risann en hann er nú á mála hjá IFK Norrköping í Svíþjóð.

Rússnesk félög hafa verið á höttunum eftir Arnóri frá því undir lok síðasta tímabils en hann hefur unnið sér inn fast sæti í byrjunarliði Norrköping undanfarnar vikur.

Norrköping ætlar ekki að selja Arnór ódýrt en talið er að kaupverðið á hinum unga Íslendingi verði allt að fimm milljónir evra sem jafngildir rúmlega 620 milljónum íslenskra króna. Svo segja rússneskir miðlar.

Arnór er einungis nítján ára gamall en hann hefur verið í herbúðum Norrköping frá 2017. Hann er uppalinn á Skaganum en gangi hann í raðir CSKA verður hann samherji Harðar Björgvins Magnússonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×