Íslenski boltinn

Upphitun fyrir stórleikinn í kvöld: „Það stærsta sem gerist á Íslandi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það er stórleikur í Pepsi-deild karla í kvöld er Stjarnan og Valur mætast í toppslag. Valur er með 38 stig á toppnum en Stjarnan er sæti neðar með 35 stig.

„Það er alltaf gaman að taka þátt í svona stórleikjum. Þetta er úrslitaleikur fyrir okkur. Við megum ekki missa Val sex stigum fram úr okkur því þá eru þeir búnir að vinna þessa deild,” sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.

„Þeir sem þekkja okkar leikstíl þá fórum við „all in" á okkar heimavelli. Það þýðir ekkert að hræðast eða forðast neitt. Við höldum okkar og notum okkar styrkleika og vinnum í kringum það.”

Valsmenn eru á toppnum og eru með pálmann í höndunum. Aðstoðarþjálfarinn Sigurbjörn Hreiðarsson hefur verið áður í svona stöðu.

„Ég spilaði svona leik árið 2007. Það var næst síðasti leikurinn í Krikanum. Það voru fimm þúsund manns og geggjuð stemning,” sagði Sigurbjörn.

„Það er eitt stig á milli liðanna. Þetta er eini leikurinn annað kvöld og knattspyrnuáhugamenn hljóta að mæta. Vonandi eru Stjörnumenn búnir að vippa upp pallettunum og troðfylla svæðið,” en við hverju er að búast?

„Þetta eru tvö frábær lið með ólíka leikstíla en frábærir leikmenn í hverri stöðu og á bekknum. Staffið og allt,” sagði Sigurbjörn og glotti en að endingu sagði hann:

„Þetta verður ekki skemmtilegra. Þetta er það stærsta sem gerist á Íslandi.”

Leikur Stjörnunnar og Vals hefst klukkan 19.15 en upphitun Stöðvar 2 Sport úr Garðabæ hefst klukkan 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×