Íslenski boltinn

Aukin pressa á að ná markinu þegar yngri bróðirinn skoraði

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Finnur Orri var feginn að ná marki í Pepsi-deildinni áður en hann lék 200. leik sinn í efstu deild.
Finnur Orri var feginn að ná marki í Pepsi-deildinni áður en hann lék 200. leik sinn í efstu deild. Fréttablaðið/anton
Finnur Orri Margeirsson, miðjumaður hjá KR, átti svo sannarlega viðburðaríka helgi þegar hann skoraði loksins fyrsta mark sitt í Pepsi-deild karla, rúmum sólarhring eftir að hafa eignast fyrsta barn sitt.

Eignaðist hann barn snemma dags á laugardaginn og var svo mættur í byrjunarlið KR í 4-1 sigri á ÍBV í Pepsi-deild karla um miðjan sunnudag. Tókst honum þar, loksins, að brjóta ísinn rúmum tíu árum eftir að hann lék fyrsta leik sinn í efstu deild fyrir uppeldisfélag sitt, Breiðablik.

Hann var skiljanlega afar kátur er Fréttablaðið tók á honum púlsinn eftir helgina.

„Það er ekki hægt að segja annað en að lífið sé gott þessa dagana, þetta var ansi mögnuð helgi. Auðvitað gerðist þetta svona, að fyrsta markið komi sömu helgi og maður eignast fyrsta barnið sitt,“ segir Finnur hlæjandi og heldur áfram:

„Það var ljúf tilfinning að sjá hann loksins í netinu, ekki að þetta hafi eitthvað legið þungt á manni.“

Eina mark hans í meistaraflokki kom í undankeppni Evrópudeildarinnar en það mark var tekið af honum í Pepsi-deildinni fyrir tveimur árum. Var það síðar skráð sem sjálfsmark og biðin hélt áfram.

Sló einn dómaranna á létta strengi með Finni eftir leik.

„Einn dómarinn hitti á mig eftir leikinn til að tilkynna mér að þetta hefði verið skráð sem sjálfsmark, hann náði mér upp í nokkrar sekúndur en svo var þetta allt á léttu nótunum,“ sagði Finnur en Halldór Páll Geirsson, markvörður ÍBV, var í boltanum á leiðinni í netið.

Aðspurður sagðist hann ekki hafa haft tíma til að henda í neitt eftirminnilegt fagn í tilefni dagsins.

„Ég náði því ekki, strákarnir voru svo ánægðir fyrir mína hönd að þegar ég sneri mér við voru þeir allir komnir brosandi til mín. Þetta er búið að liggja svolítið í loftinu, ég var búinn að vera nálægt því að skora í sumar en það gerðist ekki. Við töluðum um það um daginn að annaðhvort kæmi markið núna í sumar eða aldrei.“

Yngri bróðir hans, Viktor Örn Margeirsson, braut ísinn í efstu deild fyrr í sumar þegar hann skoraði tvívegis fyrir Blika í sigri á Víkingi.

„Þegar hann tók upp á því að skora, þá fór ég að finna fyrir smá pressu. Ég gat ekki staðið hjá markalaus á meðan hann er að skila á báðum endum vallarins,“ sagði Finnur og hélt áfram: „Ég veit samt ekki hvort ég næ að skora tvö í einum leik,“ sagði Finnur léttur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×