Íslenski boltinn

Óli Stefán: Sögðum félaginu við hefðum ekki áhuga á að vera topp sex klúbbur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir á Floridanavellinum skrifar
Óli Stefán Flóventsson var ekki sáttur í leikslok
Óli Stefán Flóventsson var ekki sáttur í leikslok Vísir
Grindavík er svo gott sem úr leik í Evrópubaráttunni í Pepsi deild karla eftir tap gegn Fylki í kvöld. Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, sagði sína menn hafa sent skír skilaboð um að þeir væru ekki topp 6 klúbbur með frammistöðunni í Árbænum.

„Það var margt sem fór úrskeiðis í dag,“ sagði hreinskilinn Óli Stefán eftir leik í Árbænum. Grindavík tapaði 3-1 eftir að staðan var markalaus í hálfeik. 

„Klisjukennt að segja það en Fylkir vildi þetta bara miklu meira og það sást í dag. Gríðarlega svekktur og með svona frammistöðu eigum við bara nákvæmlega ekkert skilið.“

Ljóst var fyrir leikinn að Grindavík þurfti sigur til þess að halda sér í raunhæfum séns á Evrópusæti, þó enn sé vissulega tölfræðilegur möguleiki á því. Óli Stefán hélt sig við þétta varnarlínu allan leikinn, hugaði hann ekkert að því að fækka í vörninni?

„Ég var ekki með marga sóknarvalkosti á bekknum. Gerði það sem ég gat en spurningin um það hvort við vildum vera topp sex klúbbur, hún var til staðar í dag og við svöruðum henni þannig að við höfðum engan áhuga á því.“

Það hlýtur að vera sárt sem þjálfari að sjá sína menn bregðast svona við þessari spurningu? „Já, já. Við erum bara ekki komnir lengra en þetta, því miður.“

„Það var bara svarið sem þeir gáfu félaginu í dag,“ sagði Óli Stefán Flóventsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×