Guðmundur Þórarinsson átti stóran þátt í sigurmarki Norrköping í 2-1 sigri á Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Norrköping var 1-0 undir er komið var fram í uppbótartíma en þá jafnaði David Moberg Karlsson úr vítaspyrnu.
Enn lengra inn í uppbótartímann fann Norrköping sigurmark. Eftir fyrirgjöf Guðmundar barst boltinn til Kasper Larsen sem kom boltanum í netið.
Lokatölur 2-1 sigur Norrköping sem er í þriðja sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir toppliði AIK. Guðmundur spilaði allan leikinn en Arnór Sigurðsson var ónotaður varamaður.
