Fótbolti

Arnór lagði upp í stórsigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór Ingvi Traustason fagnar hér marki með Malmö
Arnór Ingvi Traustason fagnar hér marki með Malmö Vísir/EPA
Arnór Ingvi Traustason lagði upp eitt marka Malmö í stórsigri á Sirius í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Kristján Flóki Finnbogason og félagar steinlágu fyrir Hacken.

Eftir markalausan fyrri hálfleik í Malmö voru ótrúlegar loka mínútur þar sem Malmö setti fimm mörk á 25 mínútum.

Stíflan brast á 62. mínútu þegar Markus Rosenberg skoraði úr vítaspyrnu. Romain Gall setti tvö mörk á sex mínútuna kafla áður en Arnór lagði upp mark fyrir Anders Christiansen. Marcus Antonssn átti svo síðasta orðið með fimmta markinu á 88. mínútu.

Það var annar stórsigur þegar Hacken og Brommapojkarna mættust. Kristján Flóki Finnbogason spilaði allan leikinn í liði Brommapojkarna sem átti lítinn séns í þessum leik.

Fyrsta markið kom strax á 3. mínútu. Heimamenn fengu svo vítaspyrnu á 9. mínútu sem Paulinho misnotaði. Það kom þó ekki að sök.

Mínútu síðar skoraði Alexander Faltsetas áður en nafni hans Alexader Jeremejeff bætti við öðru marki sínu og þriðja marki Hacken.

Heimamenn héldu áfram í seinni hálfleik, skoruðu þar önnur þrjú mörk og lokastaðan 6-0 sigur Hacken.

Brommapojkarna er í fallbaráttu en Hacken er í baráttunni í efri hluta deildarinnar. Malmö er átta stigum á eftir toppliði AIK sem á þó leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×