Fótbolti

HB tapaði í vítaspyrnukeppni

Dagur Lárusson skrifar
Vísir/Eyþór
Heimir og lærisveinar hans í HB töpuðu fyrir B36 í úrslitum bikarsins í Færeyjum í kvöld.

 

Þetta var mikill baráttu leikur en bæði lið mættu ákveðin til leiks.

 

Það voru lærisveinar Heimis sem komust yfir í leiknum eftir flotta sókn. Það tók B36 þó ekki langan tíma að jafna metin því aðeins fjórum mínútum seinna fengu þeir umdeilda vítspyrnu sem þeir skoruðu úr.

 

Fimm mínútum eftir jöfnunarmark B36 fengu HB aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Adrian Justinusen tók spyrnuna og söng boltinn í netinu, einkar glæsilegt mark sem kom HB yfir á nýjan leik.

 

Allt stefndi í sigur HB en það varð þó ekki raunin því í uppbótartíma náðu liðsmenn B36 að knýja fram framlengingu með jöfnunarmarki. HB spilaði þó tveimur mönnum fleiri í framlengingunni þar sem tveir leikmenn B36 fengu rautt spjald.

 

Í framlengingunni voru farin að sjást þreytumerki á báðum liðum og því ekki mikið um gæði í sóknarleiknum og því þurfti að ljúka leiknum með vítaspyrnu keppni.

 

Í vítaspyrnukeppninni voru það B36 sem höfðu betur og eru því bikarmeistarar í Færeyjum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×