Ragnar tilkynnti óvænt eftir HM í Rússlandi að hann hefði spilað sinn síðasta landsleik. Nú virðist miðvörðurinn 32 ára ætla að svara kalli Hamrén sem sagðist á dögunum ætla að reyna hvað hann gæti að fá Ragnar til að endurskoða hug sinn.
Ragnar hefur spilað 80 landsleiki fyrir Ísland og skorað í þeim þrjú mörk. Hann hefur verið hluti af gullaldarliði Íslands sem farið hefur á EM 2016, HM 2018 og spilar nú í efsta styrkleikaflokki Þjóðadeildarinnar. Liðið mætir Sviss ytra 8. september og Belgíu heima 11. september. Síðustu tveir leikirnir fara svo fram í október.

Stuttur undirbúningur fyrir fyrsta leik
Aðeins eru fimmtán dagar í fyrsta leik og mögulega hefur Ragnar ákveðið að taka slaginn með landsliðinu vegna þess hve lítinn tíma nýr landsliðsþjálfari hefur til að gera breytingar á liðinu.Ragnar hefur spilað við hlið Kára Árnasonar í hjarta íslensku varnarinnar undanfarin ár. Kári, sem er á 36. aldursári, taldi eftir HM að líklega hefði hann spilað sinn síðasta landsleik. Hann sagðist þó vera klár í að spila meira ef kallið kæmi. Samkvæmt heimildum Vísis er Kári einnig í fyrsta hópi Hamrén.
Fyrir liggur að framherjinn Alfreð Finnbogason er ekki til taks vegna meiðsla. Þá er óvíst um þátttöku Arons Einars Gunnarssonar sem ekki hefur spilað með Cardiff í ensku úrvalsdeildinni það sem af er leiktíð.
Bein útsending verður á Vísi frá blaðamannafundi Erik Hamrén í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli. Útsendingin hefst með upphitun klukkan 13 og klukkan 13:15 tekur Hamrén við og kynnir hópinn sinn.