Íslenski boltinn

Óli segir FH í tilvistarkreppu: „Erfitt að vita hvernig maður á að haga sér“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
S2 Sport
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var sérstakur gestur í Pepsimörkunum á Stöð 2 Sport í gærkvöldi. Gengi FH í sumar hefur ekki staðið undir væntingum í Hafnarfirði og sagði Ólafur félagið vera í tilvistarkreppu.

FH hefur verið eitt besta lið Íslands síðustu ár en átti vonbrigðatímabil í fyrra og þetta tímabil er ekki skárra, FH er í hættu á að missa af Evrópusæti í fyrsta skipti í meira en áratug.

Ólafur tók við þjálfun FH síðasta haust eftir brotthvarf Heimis Guðjónssonar. Var verkefnið stærra en hann bjóst við?

FH-ingar hafa þurft að horfa upp á mörg lið fagna mörkum gegn sér í sumarvísir/bára
„Já, það er það. Það er stærra en ég gerði mér grein fyrir að mjög mörgu leiti, ekki bara því sem snýr að liðinu sem er að spila,“ svaraði hreinskilinn Ólafur þegar Gunnar Jarl Jónsson bar upp spurninguna í þætti gærkvöldsins.

„FH er á vissan hátt í tilvistarkreppu, maður getur nefnt það það, árangurinn hefur verið með eindæmum góður síðustu fimmtán árin og allt í einu stendur félagið frammi fyrir því að árangurinn er ekki eins góður og menn hafa verið vanir.“

„Þá er svolítið erfitt að stíga þar inn og vita hvernig maður á að haga sér.“

FH er í fimmta sæti deildarinnar með 24 stig, þremur stigum á eftir KR í fjórða sætinu, sem er síðasta sætið sem veitir þáttökurétt í Evrópukeppni á næsta ári. Liðið hefur aðeins unnið sex af 17 deildarleikjum sínum og ekki náð í sigur í síðustu þremur leikjum.

„Síðan eru gerðar ákveðnar breytingar í haust á þjálfaramálum. Farsæll þjálfari stoppar og annar tekur við. Það var alveg ósk stjórnar og þeirra sem réðu mig að fara í ákveðnar breytingar og við erum bara þar ennþá.“

„Það sem ég er ósáttur við er stigasöfnunin að sjálfsögðu en við erum bara ennþá í ákveðnu umróti. Ég er ráðinn til þess að gera hlutina á minn hátt. Það er pínu lítið þannig að maður þarf að laga sig að því eða þeir geta ekki verið með,“ sagði Ólafur Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×