Innlent

Telur gerðardóm vilhallan ríkinu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir. Fréttablaðið/Eyþór
Gerðardómur í kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins úrskurðaði í gær. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir sín viðbrögð fyrst og fremst vonbrigði.

Katrín Sif segir ljósmæður hafa bundið vonir við að gerðardómur myndi hækka grunnlaun stéttarinnar en að það hafi ekki gerst. Hún segir að í úrskurðinum sé vissulega að finna „leiðréttingar á gífurlegum réttlætismálum“, eins og að nemum verði borgað fyrir unna vinnu og að einstaklingur lækki ekki í launum fyrir að bæta við sig háskólanámi, en að yfir þeim ákvörðunum sé engin sigurvíma heldur finnist ljósmæðrum biturt að hafa yfir höfuð þurft að berjast fyrir því.

Sjá einnig: „Við erum ekki sáttar“

Katrín Sif segist hafa verið hrædd við að treysta á að gerðardómur leiddi málið til lykta.

„Maður er alltaf hræddur við það þegar gerðardómur er skipaður af ríkinu og fær sína vinnutilhögun og launin frá ríkinu. Manni finnst að í gegnum tíðina hafi gerðardómur verið svolítið í úrskurðum sínum vilhallur ríkinu,“ segir Katrín Sif. Helsta undantekningin frá því hafi verið í máli BHM og hjúkrunarfræðinga um árið.

Enn fremur segist Katrín Sif óttast um framtíð stéttarinnar. Hún sjái mikla reiði á spjallþráðum á netinu. „Ég sé ekki að þetta verði til þess að þær ljósmæður sem ekki hafa dregið uppsagnir sínar til baka geri það núna.“




Tengdar fréttir

„Við erum ekki sáttar“

"Nei, við erum ekki sáttar,“ segir Guðlaug M. Sigurðardóttir sem situr í samninganefnd Ljósmæðrafélags Íslands um niðurstöðu gerðardóms í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×