Erlent

Merkel vill sjá Weber sem arftaka Juncker

Atli Ísleifsson skrifar
Manfred Weber hefur átt sæti á Evrópuþinginu frá árinu 2004.
Manfred Weber hefur átt sæti á Evrópuþinginu frá árinu 2004. Vísir/Getty
Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur lýst yfir stuðningi við framboð Manfred Weber, leiðtoga Evrópska þjóðarflokksins (EPP) á Evrópuþinginu, til að verða arftaki Jean Claude Juncker sem forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eftir kosningar til Evrópuþingsins á næsta ári.

Kosningar til Evrópuþingsins fara fram í maí næstkomandi, en Evrópski þjóðarflokkurinn (EPP) er nú stærsti flokkurinn á Evrópuþinginu.

Hinn 46 ára Weber tilkynnti fyrr í dag að hann myndi sækjast eftir því að leiða flokkinn í kosningunum, með það að markmiði að taka við embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB að þeim loknum. Merkel lýsti fljótlega yfir stuðningi við Weber eftir að hann greindi frá ákvörðun sinni.

Barnier og Stubb einnig nefndir

Í frétt Reuters  segir að skoðanakannanir bendi til að líklegt sé að EPP, sem er hreyfing hægriflokka og kristilegra demókrata í Evrópuþinginu, muni áfram verða stærstir á Evrópuþinginu eftir kosningar.

Ekki er hins vegar öruggt að samstaða náist um það innan EPP að Weber verði leiðtogi hans í kosningunum. Nöfn Frakkans Michel Barnier, aðalsamningamanns ESB í Brexit-viðræðunum, og Alexander Stubb, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, hafa einnig verið nefnd til sögunnar sem hugsanlegir kandídatar.

Margir leiðtogar aðildarríkja andvígir kröfum þingsins

Jafnvel þó að samstaða næðist um Weber innan EPP og flokkurinn yrði stærstur á Evrópuþingi, er þó á endan hátt víst að hann tæki við af Juncker. Ástæðan er sú að margir leiðtogar aðildarríkjanna eru andsnúnir þeirri kröfu Evrópuþingsins að leiðtogar ESB-ríkjanna verði að ná saman um einhvern leiðtoga flokkanna á þinginu til að gegna embætti forseta framkvæmdastjórnar sambandsins.

Weber hefur átt sæti á Evrópuþinginu frá árinu 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×