Íslenski boltinn

Bjerregaard: Lítill skilningur á taktík á Íslandi miðað við í Danmörku

André Bjerregaard í leik á móti Víkingi í sumar.
André Bjerregaard í leik á móti Víkingi í sumar. vísir/daníel
Danski framherjinn André Bjerregaard sem yfirgaf KR á dögunum er búinn að finna sér nýtt lið en hann samdi við Hvidovre sem er í sjöunda sæti dönsku B-deildarinnar.

Hann langar að sanna sig á ný í danska boltanum og þá sérstaklega í dönsku úrvalsdeildinni þar sem að hann spilaði áður með Horsens. Síðast þegar að hann spilaði í deild þeirra bestu skoraði hann þrjú mörk í 31 leik.

„Ég þurfti að prófa eitthvað nýtt aftur. Minn tími var kominn á Íslandi og ég saknaði Danmerkur og danska fótboltans. Það var upplifun að vera á Íslandi en ég vildi prófa eitthvað nýtt,“ segir Bjerregaard í viðtali við danska fótboltavefinn Bold.dk.

Bjerregaard gekk í raðir KR um mitt sumar í fyrra og skoraði fjögur mörk í tíu leikjum. Hann skoraði önnur fjögur í 16 leikjum í sumar áður en að hann datt úr liðinu og fór heim til Danmerkur. Honum finnst íslenska deildin fín.

„Þetta er ljómandi góð deild með góðum leikmönnum. Miðað við Danmörku er lítill taktískur skilningur í gangi en annars er deildin góð, sérstaklega bestu liðin. Hún er allavega alls ekki slæm,“ segir Daninn.

„Nú er markmiðið mitt að sýna að ég geti komist í úrvalsdeildarlið í Danmörku. Ég sýni það vonandi í Hvidovre að ég get spilað á hæsta þrepi í Danmörku,“ segir André Bjerregaard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×